Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi skrifaði umsögn um heimildamyndina Hálfan Álf á dögunum, þar sem hann fer afar fögrum orðum um myndina og segir hana m.a. einstaklega fallega mynd sem sé beinlínis grípandi á köflum. Gefum Jóni Viðari orðið:
„ELLIN LEIKUR MARGAN GRÁTT og viðbrögð manna við henni eru sjálfsagt jafn misjöfn og þeir eru margir. Sumir fyllast sorg og eftirsjá eftir glataðri heilsu, jafnvel glötuðu sjálfstæði, beiskju og reiði sem getur hæglega leitt þá niður í djúpt þunglyndi, ef ekki er að gert. Aðrir reyna að horfa til sólar hvað sem á bjátar og glata ekki hæfileikanum til að gleðjast yfir því sem lífið býður enn upp á þó að hið fyrra sé að miklu leyti farið. Þannig er um afann sem Jón Bjarki Magnússon lýsir í nýrri bíómynd sem ber heitið Hálfur álfur (er nú sýnd í Bíó Paradís) og ég er ekki alveg viss um hvernig á að flokka, en líklega verður hún að kallast stuttmynd því að hún er aðeins klukkutími á lengd. Hún er ekki leikin nema þá í mjög óeiginlegum skilningi og varla getur hún talist heimildamynd þó hún fjalli um raunverulegt fólk og nafngreini það.
En hvað sem því líður, þá er þetta einstaklega falleg mynd og beinlínis grípandi á köflum. Jón Bjarki dregur þarna upp afar sterka mynd af afa sínum (sem er nú látinn) og síðustu lífssporum hans og til þess beitir hann ýmsum meðölum; upphafsskot myndarinnar birta til dæmis óþægilega nærgöngula, að ekki sé sagt hlífðarlausa mynd af hrörnun ellinnar. En hann bregður einnig birtu yfir yrkisefnið með mildri ljóðrænu og dágóðum skammti af elskulegum húmor og það tekst honum ekki síst í krafti þess að afi hans er ekki einn þeirra sem “sýta sárt og kvíða” eins og segir í þekktum sálmi, heldur reynir markvisst að halda lifandi í brjósti sér fögnuðinum yfir því fagra og því skemmtilega í lífinu, lætur þar nótt sem nemur (svo vitnað sé í annað sálmaskáld) og mætir dauðanum án allrar æðru – enda löngu orðinn ferðlúinn og búinn til brottferðar.
Þar kemur ekki síst til allur gamli kveðskapurinn, þessi íslenska ljóðahefð sem lifir í minni hans, glitrandi í ótal blæbrigðum ef menn nenna að taka eftir því- og raunar ekki síður hjá konu hans sem fær einnig að vera með þó hún sé fremur á hliðarlínunni, fókusinn er að langmestu leyti á gamla manninum. Stöku augnablik eru kannski full teygð (ég nefni einkum heldur langdregna upptöku úr aldarafmæli gamla mannsins), en þó ekki svo að bitni á heildarrytma verksins sem er agaður og öruggur. Það er sannarlega ástæða til að óska Jón Bjarka og öllum sem að myndinni standa til hamingju með árangurinn,“ skrifar Jón Viðar, sem bætir síðar við:
„Ég get bætt því við sem ég heyrði annan bíógest segja á útleið eftir myndina, að þetta sé ein íslenskasta mynd sem hann hafi séð. Og ég get tekið heils hugar undir það.“