Morgunblaðið um Hálfan Álf: Skemmtileg og falleg mynd sem sýnir fram á gildi þess að skapa list þvert á kynslóðir

7.06.2021

Gunnar Ragnarsson, kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins, skrifar dóm um Hálfan Álf í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann gefur myndinni fjórar stjörnur. „Hálfur Álfur er skemmtileg og falleg mynd sem er merkilegur vitnisburður um fólk og kynslóðina sem það tilheyrir. Hún lýsir hversdagsleika þess en leyfir sér líka að vera ekki of jarðbundin. Gjörningur verksins er persónulegur, og sýnir fram á gildi þess að skapa list þvert á kynslóðir,“ segir m.a. í umsögn Gunnars um myndina. Hér á eftir fer dómurinn í heild:

„Heimildarmyndin Hálfur Álfur eftir Jón Bjarka Magnússon hlaut dómnefndarverðlaun Skjaldborgar, hátíðar íslenskra heimildarmynda, á síðasta ári. Margar keppnismyndanna hafa verið sýndar í Bíó Paradís að und- anförnu og nokkuð ljóst að gróskan er mikil í greininni.

Hálfur Álfur fjallar um hjónin Trausta „Álf“ Breiðfjörð Magn- ússon og Huldu Jónsdóttur en þau voru afi og amma höfundarins. Stykkið hefst á óræðri myrkursýn, dauf birta berst úr fjarska. Þegar klippt er á nærmynd af ljósinu reynist skíman vera úr vita sem ferðast um sjónardeildarhringinn, út og inn. Þessi gamli og fallegi viti, málaður appelsínugulum lit, er á Sauðanesi þar sem Trausti gegndi hlutverki vitavarðar fyrir margt löngu en hjónin ólust upp á Strönd- um og búa í höfuðborginni í nútíð myndarinnar. Þegar frásögn hefst er aldarafmæli Trausta handan við hornið en Hulda er örlítið yngri – og er myndin ákveðinn lokakafli á æviskeiði þessa mæta fólks.

Framan af virðist myndin vera í athugunarstíl (e. observational) heimildarmynda, þar sem mynda- vél er sem fluga á vegg og fylgist með því sem fyrir hana ber með eins konar „vísindalegu sjónar- horni“ (sem er vitanlega ómögu- legt). Margt sem fylgir er þó af öðrum meiði, á þann hátt að við- föngin taka meðvitað þátt í að skapa galdur myndarinnar. Við nemum hversdagsleikann en um leið sviðsetningu hans – heim sem er mótaður eftir hugðarefnum höf- undar og viðfanganna, sem mætti ganga svo langt að kalla meðhöf- unda.

Trausti „Álfur“ er í forgrunni frásagnar. Í upphafi sést hann undirbúa morgunverð með öllu sem felst í því – að sjóða sér hafragraut (nokkuð þunnan), smyrja brauð- sneið og skera banana með vasa- hníf. Hin tæplega aldargamla sögu- hetja er fígúra í einkennilegra lagi – ekta og kjörin söguhetja í bíó- mynd. Honum mætti lýsa sem spé- fugli – lífsglöðum með eindæmum en hann syngur og trallar daginn, og myndina, út og inn með hárri rödd sinni. Hann segist sko vera „alls engin spekingur“ en við fáum þó að kynnast honum í gegnum frá- sagnir hans og ýmis uppátæki (tal- andi hans er frekar óskýr og hjálp- aði enskur texti á köflum örlítið til þess að átta sig). Trausti segir m.a. frá bernskudraumi þar sem álfur vitjaði hans og tjáði honum að hann myndi aldrei drukkna um ævina og væri því fær í flestan sjó, en Trausti sótti sjó um hríð líkt og fað- ir hans áður. Álfurinn var verndari hans og því vildi Trausti taka upp nafnið Álfur honum til heiðurs.

Myndin notar álfaþráðinn sem meginuppistöðu í vefnaði sínum. Lög og kveðskapur um álfa og huldufólk eru sungin af Trausta en hljóma einnig í útsetningum Teits Magnússonar og Sindra Freys Steinssonar. Máninn hátt á himni skín, hrímfölur og grár – en líka veraldlegri álfakvæði eins og lagið „Pistol-Packing Mama“ í flutningi kantrísöngvarans Als Dexters. Á heimili þeirra hjóna hljómar einatt gamla gufan en hún virðist færa áhlýðendum vísur og fregnir af álf- um liðlangan daginn. Á þennan sniðuga hátt er sköpuð furðuver- öld, í senn kunnugleg og framandi, en einstaklega notaleg.

Mótvægi Trausta er síðan Hulda eiginkona hans en hún virðist vera andstæða hans að mörgu leyti. Hulda er hlédrægari, með djúpa rödd, bókelsk og svolítið kaldhæð- in. Hún hneykslast á uppátækjum Trausta og gefur lítið fyrir áætl- anir hans um að taka sér Álfs- nafnið. Hún fer með ýmis kvæði í heilu lagi en hún segir eiginmann- inn aldrei hafa verið fyrir bækur. Skiljanlegt er að Trausti sé örlítið atkvæðameiri, einfaldlega þar sem hann er svo úthverfur persónuleiki. Samband hjónanna og jafnvægi þeirra á milli er einkar skemmtilegt. Auðvelt er að þykja vænt um þau – og hugur rýnis leitar ósjálf- rátt til fjölskyldumeðlima sem tilheyra sömu kynslóð.

Nokkrum sinnum er horfið aftur til sena þar sem Trausti skoðar lík- kistuna sína, sem honum er mjög umhugað um, og ræðir við mann sem virðist starfa hjá útfararstof- unni. Þessi atriði draga á skemmti- legan hátt fram að menn veigra sér ekki við að „leika“ örlítið og búa til bíó. Skiljanlega er hálfa álfinum hinsta stundin ofarlega í huga en hann einblínir á hundrað árin. Þeg- ar afmælisveislan skellur á í björt- um veislusal með tilheyrandi fögn- uði og söng með niðjum og vinum syngur Trausti hæst allra – „lay that pistol down“.

Hálfur Álfur er skemmtileg og falleg mynd sem er merkilegur vitnisburður um fólk og kynslóðina sem það tilheyrir. Hún lýsir hversdagsleika þess en leyfir sér líka að vera ekki of jarðbundin. Gjörningur verksins er persónulegur, og sýnir fram á gildi þess að skapa list þvert á kynslóðir.“